BAROKKBANDIÐ BRÁK hefur skipað sér fastan sess í íslensku tónlistarlífi síðustu misseri.  Hópinn skipa hljóðfæraleikarar sem eiga það sameiginlegt að hafa sérhæft sig í upprunaflutningi á tónlist barokktímabilsins og vilja nýta þessa þekkingu til tónleikahalds og verkefna á Íslandi. Barokkbandið Brák hefur verið starfrækt frá árinu 2014 og var stofnað af fiðluleikurunum Elfu Rún Kristinsdóttur, Laufeyju Jensdóttur og Guðbjörgu Hlín Guðmundsdóttur. 

Brák hefur staðið fyrir fjölda tónleika í Reykjavík og víðar frá árinu 2015 og fær hópurinn reglulega til liðs við sig jafnt íslenska sem erlenda hljóðfæraleikara, söngvara og dansara til að glæða nýju lífi í tónlist barokks- og endurreisnartímans. Þá hefur Brák einnig haft það að leiðarljósi að efla nýja tónsköpun fyrir upprunahljóðfæri með því að frumflytja reglulega verk eftir íslensk samtímatónskáld. 

Brák hefur hlotið góðar viðtökur jafnt áheyrenda og gagnrýnenda og verið lofuð fyrir líflegt og fjölbreytt tónleikahald frá stofnun hópsins. Þónokkrir tónleikar Brákar hafa verið hljóðritaðir og þeim útvarpað af Ríkisútvarpinu. Þá hefur Brák margsinnis hlotið tilnefningar til Íslensku Tónlistarverðlaunanna, sem Tónlistarflytjandi Ársins (2017, 2018 og 2020) en einnig fyrir Tónlistarviðburð Ársins í flokki Sígildrar- og Samtímatónlistar (2018 og 2020).  Verðlaunin féllu einmitt hópnum í skaut árið 2020 fyrir tónleikana Brák og Bach sem fram fóru í Eldborgarsal Hörpu í september það ár.

TVÆR HLIÐAR/TWO SIDES 

Fyrsta hljómplata Barokkbandsins Brákar nefnist Tvær Hliðar / Two Sides en hún kom út hjá bandaríska útgáfufyrirtækinu Sono Luminus í september árið 2022. Upptökustjórn var í höndum Ragnheiðar Jónsdóttur og var útgáfunni dreift af Naxos um heim allan. Tvær Hliðar/Two Sides inniheldur annars vegar ítölsk og sænsk tónverk frá barokktímabilinu og hinsvegar tónverk eftir íslensk samtímatónskáld sem pöntuð voru og frumflutt af hópnum. Tvær hliðar/Two Sides hefur hlotið verðskuldaða athygli innanlands sem utan en hlaut platan  afar góða dóma á erlendum miðlum sem fjalla um klassíska tónlist. Má þar helst nefna Grammophone, Textura magazine, The WholeNote og fleiri. Verk af hljómplötunni hafa margsinnis verið leikin af erlendum útvarpsstöðvum m.a. í Þýskalandi, Svíþjóð og víðar. Þá hlaut platan tvær tilnefningar til Íslensku Tónlistarverðlaunanna árið 2022 sem plata ársins og fyrir upptökustjórn ársins í flokki Sígildrar og -samtímatónlistar.