BAROKKBANDIÐ BRÁK er hópur ungs tónlistarfólks sem á það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á barokktónlist, hefur sérhæft sig að hluta í þeirri tónlist erlendis og vill koma upprunaflutningi á framfæri á Íslandi. Langtímamarkmið Barokkbandsins er að taka þátt í uppbyggingu enn stærri barokksenu á Íslandi.

Barokkbandið Brák er hópur sem kemur fram í mismunandi hljóðfærasamsetningum, allt eftir efnisvali fyrir hverja tónleika og uppákomur fyrir sig. Þannig heldur hópurinn stundum smærri kammertónleika eða stærri hljómsveitartónleika, en áhersla er einnig lögð á að blanda saman einleiksverkum, kammerverkum og hljómsveitarverkum á einum og sömu tónleikunum. Framtíðarmarkmið Barokkbandsins er að eiga virkt samstarf við aðrar listgreinar.

Fyrstu tónleikar Barokkbandsins voru haldnir dagana 16.-19. júlí á Sumartónleikum í Skálholtskirkju. Þar lék hópurinn tvær mismunandi tónleikadagskrár á fernum tónleikum. Í annarri dagskránni var áhersla lögð á franska kammertónlist, en í hinni komu tveir náttúruhornleikarar fram með hópnum sem flutti meðal annars hljómsveitarverk eftir CPE Bach og Graun. Barokkbandið Brák frumflutti einnig nýtt verk eftir Finn Karlsson.

Í apríl kemur Barokkbandið Brák fram í fyrsta skipti í Reykjavík, en þá verða settir upp óhefðbundnir tónleikar þar sem tónleikagestir verða hluti af leikmynd tónleikanna. Efnisskráin verður sett saman úr veraldlegum verkum frá barokktímanum með leikræna heild tónleikanna í huga. Söngverk verða í aðalhlutverki, tveir dansarar taka þátt, en einnig verða einleiks og tvíleiksverk fléttuð inn í dagskrána.


Stofnefndur Barokkbandsins Brákar
Elfa Rún Kristinsdóttir
Laufey Jensdóttir
Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir